12.5.2008 | 23:38
2
Jæja... Færsla númer 2 en ætti að vera númer 3. Komst ekkert til að blogga í gær þar sem ungfrúin á heimilinu hélt mömmu sinni meira en upptekinni frá því að haninn galaði góðan daginn þar húmaði að kvöldi. Jafnvel nóttin fékk ekki að líða án þess að mamman þyrfti að huga reglulega að ungfrúnni, því ekki þýddi að bjóða uppá hlýjan föðurfaðm til að róa litla óróann, mömmufaðmur skyldi það vera og ekkert annað. Úr varð að faðirinn gaf eftir sitt ból og fór fram í stofu til að ná að minnsta kosti hænublundi áður en dagur rynni. Óþarfi að báðir foreldrarnir væru ósofnir... Veit ekki hvað var að angra litla óróan minn og það er alltaf svolítið óþægilegt að geta ekki bara spurt og fengið svar... Dagurinn í dag er líka búin að vera henni svolítið erfiður en núna sefur hún, ekki eins vært og mamman vildi því hún rumskar reglulega, grætur smá og hóstar... Litla angaskinnið... Ætli faðirinn vermi ekki stofusófan aftur í nótt? Hann þarf jú að mæta í vinnu í fyrramálið en mamman þarf ekkert að fara frekar en hún vill. Er heimakær hvort eð er og sonurinn er í sveitinni hjá ömmu og afa þannig að ekki þarf mamman að vakna með honum... Æihh... sakna hans og hlakka til þegar hann kemur aftur heim. Það er nefnilega svo gaman að vakna þegar hann kemur skælbrosandi upp í stóra rúm til okkar og knúsar litlu systur sína fyrst af öllum. Hún er svo sannarlega sólin hans :o)
Já, þetta er yndislegt líf...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2008 | 15:21
1
Meiriháttar tímamót. Búin að ákveða að skrifa dagbók. Ekki svona venjulega bleika með rauðu hjarta, lás og lykli, vandlega falinni innst í neðstu náttborðsskúffunni undir ógrynni torkennilegra hluta sem safnast hafa saman í gegnum tíðina vegna tilfinningalegs gildis síns og einskis annars. Nei, dagbókin mín skal vera opin og í hana ætla ég að skrifa nokkrar línur hvern dag í 365 daga. Ég nefnilega átti afmæli í gær og langar fylgjast með sjálfri mér svona pínulítið utanfrá í eitt ár eða svo. Svona einskonar eigindleg sjálfskönnun...
Er ein heima núna, hlusta á gamla nostalgíu tónlist. Skrítin tilfinning að vera ein, húsið svo hljótt að tónlistin næstum því bergmálar þó hún sé stillt mjög lágt. Sit í sófanum með myndaalbúmin mín. Hugurinn flýtur um með tónunum og ég brosi með minningunum sem brjótast upp á yfirborðið. Vantar svolítið einhvern úr gamla genginu til að deila þeim með, segja: "mannstu..." en samt einhvernvegin ekki. Fæ ekki oft tækifæri til að vera "svona" ein, en upplifi mig oft eina þó að ég sé innan um fólk.
Undarlegt þetta ljúfa líf...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)